HeimUm líknarmeðferð

Um líknarmeðferð

Líknarmeðferð

Líknarmeðferð er veitt í þeim tilgangi að bæta líðan og lífsgæði sjúklinga og fjölskyldna þeirra sem glíma við langvinna og lífsógnandi sjúkdóma.

Markmið hennar er að greina, fyrirbyggja og meðhöndla einkenni sjúkdóms og sjúkdómsmeðferðar eins snemma og auðið er. Það á einnig við um andlega og sálfélagsleg þjáningu eða vandamál sem tengjast veikindunum.

Líknarmeðferð miðar að varðveislu lífsins, en jafnframt er litið á dauðann sem eðlileg þáttaskil. Markmið líknarmeðferðar er hvorki að lengja líf né flýta dauða.

Markmið er öllu heldur að styðja sjúkling og fjölskyldu hans að takast á við breyttar aðstæður og gera þeim kleift að njóta lífsins eins vel og hægt er.

Í líknarmeðferð er áhersla lögð á heildræna nálgun og teymisvinnu. Hún getur átt við frá greiningu alvarlegs sjúkdóms, samhliða annarri læknanlegri eða lífslengjandi meðferð. Áhersla á líknarmeðferð ætti að aukast eftir því sem sjúkdómur versnar og vera mest við lífslok.

Sýnt hefur verið fram á aukin lífsgæði en einnig bættar lífshorfur þegar líknarmeðferð er veitt snemma í sjúkdómsferli einstaklings samhliða t.d krabbameinslyfjameðferð.

Fyrir hverja er líknarmeðferð

Líknarmeðferð getur gagnast öllum þeim sem hafa veikst af alvarlegum, langvinnum eða lífsógnandi sjúkdómum.

Má þar nefna sjúkdóma eins og krabbamein, langvinna hjartabilun, langvinna lungnateppu, langvinna nýrnabilun, taugahrörnunarsjúkdóma og heilabilun.

Jafnframt getur líknarmeðferð átt við tímabundið þegar einstaklingur er að glíma við erfið einkenni af völdum meðferðar við læknanlegum sjúkdómum.

Hugmyndafræði líknarmeðferðar miðar einnig að því að styðja og mæta þörfum fjölskyldna og ástvina sjúklinga.

Hverjir veita líknarmeðferð

Allt heilbrigðisstarfsfólk á að hafa grunnþekkingu í almennri líknarmeðferð. Sérhæfð líknarmeðferð er veitt af heilbrigðisstarfsfólki sem hefur sérstaka menntun, reynslu og þekkingu á sviði líknarmeðferðar. Þessir aðilar veita stuðning og ráðgjöf varðandi líknarmeðferð á öllum stigum sjúkdóms, þótt almennt verði þörf fyrir sérhæfða aðkomu meiri eftir því sem sjúkdómur ágerist.

Sérhæfð líknarmeðferð er veitt innan LSH á Líknardeildinni í Kópavogi, en þar er 12 rúma legudeild, 4 rúma 5-daga deild og göngudeild líknarmeðferðar. Auk þess er á LSH starfrækt Líknarráðgafateymi sem veitir ráðgjöf innan spítalans auk þess sem það starfar að gæðamálum og rannsóknum í líknarmeðferð. 

Þá er sérhæfð heimaþjónusta veitt af HERU sérhæfðri líknarþjónustu LSH (HERA-Heima-Eftirlit-Ráðgjöf-Aðstoð).

Einnig er starfræk Heimahlynning á Akureyri og á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. 

Hvað er lífslokameðferð

Lífslokameðferð er hluti af líknarmeðferð og er veitt þegar sjúklingur er deyjandi og á aðeins fáeina daga eða vikur eftir ólifað.

Áhersla er lögð á að draga úr einkennum og þjáningu og tryggja að sjúklingur geti dáið með reisn. Lífslokameðferð felur ekki í sér endurlífgun, gjörgæsluvistun eða önnur íþyngjandi inngrip.

Eins og áður er lögð áhersla á stuðning við fjölskyldu og ástvini, í aðdraganda andláts og eftir andlát.