HeimStarfsreglur Styrktarsjóðs

Starfsreglur Styrktarsjóðs

Samþykkt á stjórnarfundi Samtaka um líknarmeðferð á Íslandi 31. október 2006.

1. grein.
Sjóðurinn heitir Styrktarsjóður samtaka um líknarmeðferð. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein.
Markmið og hlutverk sjóðsins er að: Stuðla að framhalds- og símenntun heilbrigðisstarfsmanna í líknarmeðferð. Veita styrki til þróunarvinnu sem tengist beint líknarmeðferð á Íslandi svo sem rannsóknarvinnu, námskeiðshalds, útgáfustarfssemi og annað sem stuðlar að framþróun líknarmeðferðar

3. grein.
Stofnfé sjóðsins er 300.000 krónur.

4. grein.
Tekjur sjóðsins er árlegt framlag samtakanna, sem ákveðið er á aðalfundi hverju sinni, vextir og gjafir sem sjóðnum áskotnast.

5. grein.
Stjórn sjóðsins skulu skipa þrír stjórnarmenn samtakanna og er gjaldkeri ávallt einn af þeim og er hann jafnframt prókúruhafi. Hinir tveir skipta með sér verkum formanns og ritara.

6. grein.
Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar sjóðsins skulu lagðir fyrir aðalfund samtakanna. Stjórn sjóðsins ber að halda reikninga vegna úthlutanna úr sjóðnum. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir samhliða reikningum samtakanna.

7. grein.
Sjóðstjórn skal halda fundargerðarbók um ákvarðanir sínar og hvaðeina er varðar rekstur sjóðsins. Stjórnunarkostnaður greiðist af tekjum sjóðsins. Einfaldur meirihluti stjórnar ræður úrslitum. Úthlutun úr sjóðnum fer fram eftir aðstæðum hverju sinni.

8. grein.
Rétt til úthlutunar eiga þeir sem hafa verið félagar í samtökunum í að minnsta kosti eitt ár og eru skuldlausir. Styrkir verða eingöngu veittir til að sækja ráðstefnur, nám eða annars sem tengist faginu, t.d. kostnaður vegna ferða, ráðstefnugjalds og gistingar. Umsóknum verður raðað í forgangsröð og þeir sem hafa fengið styrk úr sjóðnum áður lenda þá aftar í röðinni.

9. grein.
Þeir sem hljóta styrk úr sjóðnum skulu kynna verkefni sín fyrir samtökunum innan sex mánaða frá veitingu. Kynningin getur verið í formi greinar í fréttabréfinu eða með því að segja frá verkefninu á aðalfundi.

10. grein.
Styrkjum verður úthlutað samkvæmt framvísun reikninga sem sanna það að styrkur nýtist til þeirra verkefna sem hann var ætlaður til.

Hægt er að sækja um styrk á síðunni Sækja um styrk.